Þann 4. júlí síðastliðinn hófst sýning í hönnunarsafninu Vandalorum í Värnamo í Svíþjóð á húsgögnum eftir Sigurð Gústafsson og verkum Arkitektastofunnar OG. Sýningin stendur til 11. nóvember nk. Þar getur að líta fjölbreytt úrval af húsgögnum eftir Sigurð Gústafsson sem spanna allan feril hans allt til dagsins í dag, en Sigurður hefur hlotið tvenn af helstu hönnunarverðlaunum norðurlanda, Bruno Mahtsson verðlaunin og Torsten og Wanja Söderberg verðlaunin. Af verkum Arkitektastofunnar sem eru á sýningunni má nefna Búðarhálsvirkjun sem tekin var í notkun á síðasta ári og Klettaskóla sem er nú í byggingu, Víkurskóla frá 2001, auk ýmissa samkeppnistillagna.

Á sýningunni eru einnig verk eftir Bruno Mahtsson, þekktasta húsgagnahönnuð Svía, og Ditte Hammerström frá Danmörku.

Vandalorum var opnað árið 2011 og hefur á skömmum tíma orðið eitt af helstu hönnunarsöfnum í Svíþjóð. Húsið er hannað af ítalska arkitektinum Renzo Piano, en innréttingar í það voru hannaðar af Arkitektastofunni OG.